Hvers vegna klifur?
Klifur er holl og góð íþrótt sem er styrkjandi, samhæfir huga og líkama en er umfram allt mjög skemmtileg. Allir geta klifrað!
Um kosti klifuríþróttarinnar
Við í Klifurfélagi Vestfjarða trúum því auðvitað að klifur sé allra meina bót og það hefur sýnt sig að þessi íþrótt er nýr valkostur fyrir þá sem ekki finna sig í hefðbundnum hópaíþróttum.
Klifur er vinsælt meðal barna, sérstaklega klifur innanhúss, enda skemmtileg hreyfing og auðvelt að fá útrás. Fullorðnir hafa fundið sér nýtt áhugamál í klifri því að mörgu leyti er auðveldara að byrja að stunda klifur en aðrar íþróttir á fullorðinsaldri, þar sem þægilegt er að stjórna álagi og erfiðleikum sem glímt er við og á eigin forsendum. Klifuriðkun innanhúss leiðir oft út í klifur utandyra og stuðlar þannig útiveru í náttúrulegu umhverfi.
Innanhússklifuraðstaða höfðar til klifrara, fjallafólks, skíða- og gönguskíðafólks, hjólara, hlaupara, brimbrettafólks, kayakræðara og allra þeirra sem eru virkir í íþróttum og útivistartengdum áhugamálum.
Talið er að fjöldi klifurhúsa í heiminum hafi aukist um 25% á árinu 2020 og klifur því augljóslega í mikilli sókn. Áhugi á klifri á Íslandi er einnig að aukast mikið, það sýnir aðsóknin í þau klifurhús sem fyrir eru á landinu. Það hefur líka sýnt sig að þeir sem fara að klifra innanhúss skila sér í klifur utanhúss og verða þar með virkir náttúruunnendur.
Jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu
Við klifur notar fólk í raun flesta af sínum vöðvum sem gerir þessa íþrótt mjög hentuga til að halda sér í góðu formi. Klifur er mjög gefandi og auðvelt að sjá og mæla árangur því leiðir eru yfirleitt gráðaðar eftir erfiðleika. Að klára leið sem maður sjálfur eða einhver annar hefur sett upp, kannski eftir að hafa unnið í henni um tíma, er mjög ánægjulegt.
"From a mental standpoint, climbing is an amazing teacher, instilling focus, balance, determination and a whole ... host of valuable life skills."
Cedar Wright (Professional climber)
Klifrarar segja stundum í gamni að „heilavöðvinn“ sé sá allra mikilvægasti. En klifur er nefnilega ekki síður andleg þjálfun en líkamleg. Klifur þjálfar hugann því það þarf útsjónarsemi, þolinmæði, frumleika og oft þor og áræðni til að ná markmiðum sínum. Jafnvægi er mikilvægt og liðleiki hjálpar líka til. Að þjálfa allt þetta auk vöðvastyrks er augljóslega bætandi og að okkar mati er klifur hin fullkomna íþrótt til að þjálfa alhliða.
Vísindamenn hafa sýnt fram á að regluleg ástundun í skapandi líkamlegum æfingum eins og klifri, minnkar spennu, bætir skap, eykur svefngæði og byggir upp sjálfstraust. Klifur getur einnig minnkað kvíðaeinkenni.
Rannsókn, hverrar niðurstöður birtust í tímaritinu Adapted Physical Activity Quarterly, skoðaði áhrif innahússklifurs á börn með námsörðugleika og fatlanir. Rannsóknin sýndi að eftir sex vikur af klifurþjálfun hafði sjálfstraust barnanna aukist verulega. (Útgáfa 26: Blað 3 Síður: 259–273).
Lokaverkefni um klifur á Vestfjörðum
Hayward Main, nemi við Háskólasetrið á Ísafirði, gerði lokaverkefni sitt um klifur og aðstæður til klifurs á Vestfjörðum – Rock Climbing Development in the Westfjords Region of Iceland – en þar fjallar hann meðal annars um áform um klifurhús á Ísafirði.
Hayward Main er einn af þessum erlendu nemum sem stundar klifur og myndi fagna því að geta stundað sína íþrótt hér allt árið: “The addition of an indoor climbing wall in the heart of Ísafjörður will grow the climbing community and increase the climbing development outside during the summer.”
Það er ánægjulegt að næst þegar Hayward heimsækir Ísafjörð, getur hann kíkt við í inniklifuraðstöðunni í gamla skátaheimilinu.